mánudagur, nóvember 10, 2003

Frábær helgi.
Þetta er nú búið að vera meiri snilldar helgin. Á föstudagskvöldið höfðum við það huggulegt, laugardagurinn byrjaði á hefðbundinn hátt með íþróttaskóla og grjónagraut. Við fórum síðan í myndatöku til mömmu og pabba. Þau voru sem sagt búin að kaupa ljósmyndara til að koma í Barmahlíðina, þetta tókst allt alveg snilldar vel og ég hlakka til að sjá útkomuna. Um kvöldið komu Sveinn og Unnur í mat, við vorum með hreindýrakjötbollur og þær voru bara hreinasta lostæti. Fyrsta sinn sem við eldum svona gúmmulaði en Jón og Eydís gaukuðu þessu að okkur fyrr í haust. Á sunnudaginn fórum við og kíktum á einn af nýju vinum okkar hann Bjarka. Þvílíka dúllan. Það var auðvitað mikið hlegið og mikið spjallað, gaman að eiga góða vini. Eftir sund komu síðan bekkjasystur mínar þær Arna og Bergdís, með þeim komu auðvitað börn og Halli fékk að fljóta með. Það var líka ótrúlega mikið hlegið og mikið gaman.
Góð helgi með fullt af góðu fólki. Annars fór Guðni til háls nef og eyrnalæknis áðan og annað rörið er dottið út þannig að hann fer í aðgerð 25. nóv n.k. Við fjölskyldan erum eins og langlegu sjúklingar núna þessa dagana, öll að fara til lækna og láta flikka upp á okkur, allt fyrir danmerkurferðina.

Engin ummæli: