miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Afmælið búið og núna ræður Guðni ekki lengur. Maður fær nefnilega að ráða þegar maður er afmælisbarn, fær að fara fyrst inn í bíl og svona. Það er nefnilega mikið atriði þegar maður er 4 og 5 ára, *dæs*.

Krakkarnir af deildinni komu í pizzupartý, Gummi bakaði 4 plötur af pizzu sem kláruðust eins og vindurinn. Svo skreytti hann súkkulaðiköku með batmankremi, það sló í gegn. Furðulegt hvað þetta var lítið mál að fá allan þennan skara heim. Reyndar sáu leikskólakennararnir um alla praktisku hlutina þannig að eina sem við þurftum að gera var að uppvarta. Það eru komnar myndir af herlegheitunum á netið.

Í gær fór Einar Kári svo að skoða fritidshjemmet sem hann verður vonandi á næsta vetur. Honum leist mjög vel á það en honum líst enn betur á að fara að lesa og skrifa. Það finnst honum verulega spennandi ! Í gærkvöldi fór ég svo á fund í skólanum hans þar sem var verið að ræða við okkur foreldra barna sem byrja næsta haust í skólanum. Mér leist mjög vel á þetta, þetta er reyndar stór skóli með um 800 nemendur en þeim er deilt niður í 4 hús og það er reynt að hafa börnin í sama húsi alla skólagönguna. En við erum öll orðin mjög spennt fyrir þessu skóladæmi.

Annars er lítið að frétta, fór í munnlegt próf í gær og fékk 9. Mjög ánægð með það, er að sjá fram á annarlok og það er mikill léttir. Hef á tilfinninguna að ég hafi allan tímann í heiminum, tíhí.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Afmælisbarn dagsins er Guðni Þór en hann varð 4 ára í dag. Hann er búin að spyrja á hverjum morgni í þessari viku hvort hann sé orðin 4 ára, það var mikil sorg í hvert skipti sem ég varð að segja nei. Buhu.

En venjan á þessu heimili er sú að við bökum pönnukökur á afmælum og svo má borða eins mikið af þeim og maður getur í sig látið. Einari Kára finnst það ÆÐI ! Hann er nefnilega sælkeri eins og mamma sín.
Guðni fékk fullt af fínum gjöfum, m.a legokubba sem við sátum við í lengri tíma og byggðum ýmiskonar skemmtilega hluti. Oh sniðugt þetta legó eða það finnst okkur Gumma að minnsta kosti, við sátum sveitt með uppskriftarbók fyrir framan okkur og kepptumst við að skapa alskonar hluti. Strákarnir voru meira í því að láta ímyndunaraflið njóta sín, ekki við, nei rétt skal vera rétt. Múhahaha.
Svo fórum við á jólatrésskemmtun í fyrirtækinu hans Gumma, þangað kom jólasveininn með pakka fyrir öll börnin. Svaka stuð ;-) Það var þvílíkt magn af sælgæti og gosi í boði að við löbbuðum út með frekar tryllt börn, púff mæli ekki með því.

Á morgun kemur síðan deildinn hans Guðna í hádegismat, 25 stk börn og 5 fullorðnir, takk fyrir ! Það er búið að baka stóra súkkulaðiköku og svo verða pizzur og saftevand í boði. Lekkert smekkert held ég bara. Eða vonum það að minnsta kosti.

Takk fyrir allar kveðjurnar og gjafirnar. Vonandi hef ég þrek til að setja inn myndir á morgun ;-)

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Hérna er kominn vetur, það er kalt *burr* og þegar það verður kalt í danmörku þá verður ógeðslega kalt. Ojbara og ullabjakk.

Við erum samt sæl og ánægð með lífið og tilveruna. Kíktum niður í bæ í gær, flestar verslanir eru búnar að skreyta og það var gaman að sjá alla jólasveinana og skrautið. Við fórum í nokkrar dótabúðir að kíkja á afmælisgjafir handa Guðna sem á afmæli núna þann 27 nóv. Við mæðginin vorum ekki alveg sammála um hvað hann ætti að óska sér í afmælisgjöf, en mér finnst þeir aðeins of ungir til að fá tölvuleiki og svoleiðis stóru strákadót. Sá tími mun nokk koma, en þangað til þá finnst mér pleymó vera alveg ideal. Strákarnir fengu nefnilega aur frá ömmum og öfum sem við getum keypt dót fyrir. Það þarf að skoða þetta aðeins nánar.

Þegar við vorum búin að kíkja í nokkrar búðir fórum við út að borða, um að gera að nota tímann á meðan Jón Gauti er til friðs. En hann svaf í vagninum sínum á meðan við gúffuðum í okkur alskyns góðgæti. Nammi, namm.

Núna er Gummi að baka pönnsur og við að fá gesti í kaffi. Góður endir á góðri helgi.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Gummi á afmæli

á morgun. Við tókum smá forskot á sæluna og vorum með kósi kvöld í gærkvöldi. Ég og strákarnir gáfum honum Georg Jensen aðventukrans en hann var búin að langa rosalega lengi í svoleiðis *fliss* fínerí. Það fylgdi reyndar líka ægilega fín vekjaraklukka með adjustable projektor sem á að vera einhverskonar varpi. Klukkan virkar hinsvegar ekkert sérlega vel þannig að henni verður skipt. Jáhá.

Pabbi kíkti til okkar á miðvikudagskvöldið og var yfir nótt hérna á Flintó. Hann var að lesa upp í Horsens sem er hérna í 40 mín fjarlægð. Ég brunaði með Jón Gauta og Gummi var í köben en á leiðinni heim fór hann úr lestinni í Horsens og hitti mig þar. Upplesturinn var alger snilld, það var djassband með og það var hörkustemning og svaka stuð. Pabbi kom svo heim með okkur og gisti, daginn eftir skutluðum við strákarnir honum aftur til Horsens þar sem leið hans lá til Flesborgar og Kiel.
Það er svo gaman að fá gesti, það lyftir okkur öllum aðeins úr hversdeginum, bæti hressir kætir. Ég spurði Einar Kára hvort það hefði ekki verið gaman að fá afa í heimsókn í eina nótt, þá svaraði hann mér mjög alvarlegaur : það hefði verið enn skemmtilegra ef hann hefði verið 10 nætur hjá okkur. Ekki alveg í boði núna, en kannski næst.

Það eru nýjar myndir á síðunni okkar. Biðjum að heilsa í bili, best að snúa sér aftur að verkefnum dagsins.

Ranný vinkona okkar varð íslandsmeistari í fitness í gær, viljum við óska henni til hamingju með titilinn.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Allt að gerast og ekkert að gerast !

Helstu fréttirnar eru þær að Jón Gauti er farinn að snúa sér af maga yfir á bakið, hann verður alltaf jafn hissa þegar hann lendir á bakinu. Dúllan.

Strákarnir eru hressir og kátir, sprækir eins og lækir.

Gummi er í nýju vinnunni og leikfimi, ægilega duglegur. Við varla sjáumst, en það er bara þannig.

Ég er komin með magasár yfir skólanum og ætla aldrei að fara í svona margar einingar aftur í fjarnámi.

Annars bara almennur hressleiki í gangi, erum farin að hlakka til jólanna að geta kúrt okkur upp í sófa með góða bók og nóa konfekt. Við vonumst til að fá margar bækur í jólagjöf, eigum nóa *blikk, blikk*. Svo eru auðvitað 2 afmæli í mánuðnum, Gummi 14 nóv og Guðni 27 nóv. Það verður mjög sennilega glatt á Hjalla og hnallþórur í boði, allir velkomnir.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Gummi er byrjaður í nýju vinnunni, mikil gleði með það. Reyndar er þessi bransi lítill og endalaust verið að stela starfsfólki þannig að allir hafa unnið með öllum einhvern tímann áður. Gaman að því, hehe. Í kjölfarið á nýju vinnu aukast aðeins Köben ferðirnar og það finnst mér stundum erfitt þó að ofurkona sé.

Í dag var fyrsti dagurinn hans Guðna á taleinstituttet en við mættum þangað í morgun Guðni, Gummi, Jón og ég. Í hópnum er líka strákur úr hverfinu sem heitir Tómas og mamma hans. Þetta er létt og skemmtilegt, við syngjum og dönsum, erum í leikjum og endum svo á að borða saman.

Fyndið annars með danir og brauðið þeirra, þetta er svoooo spes kúltur þetta með hvað maður borðar saman ofan á brauð og allt á að vera svo "lækkert" að það hálfa væri helmingur. Það var talað við mig á gamla leikskólnum hans Einars Kára og ég skömmuð fyrir að gefa honum bara hvítt brauð í nestispakkann. Fyrir utan það að brauðið væri hvítt þá var það "död kedeligt". Jáhá, mér finnst nefnilega heilhveiti brauð ekki vera það sama og franskbrauð, en það finnst dönum. Eina brauðið sem blivar er rúgbrauð og það finnst börnunum mínum vont, þeim finnst líka krúsidúllur og fínerí vont. Eða það tel ég mér trú um...........vinkonur mínar í mömmuklúbbnum standa á hverju kvöldi í um 30 mín til að smyrja ofan í hele famelien, því nennum við ekki þannig að aumingja börnin okkar verða að sætta sig við död kedeligt hvidt bröd med ost eller ködpåleg.