sunnudagur, október 31, 2004

Fredagsbar, gubb og veikindi

er yfirskrift helgarinnar. En frúin skellti sér á fredagsbarinn, í tilefni verkefnaskila sem voru á föstudaginn. Núna er bara eftir að verja verkefnið og þá er áfanginn búinn. Huggulegt það ! En bekkjasystir mín og kærastinn hennar komu með mér heim á eftir barinn. Það vildi svo skemmtilega til að Guðni gubbaði út um allt í uppi í stofu. Ekki eins huggulegt ! En hann er búin að vera lasinn síðan. Elsku karlinn. En hann og pabbi hans misstu því af hádegisverðarboði sem Þóra og Árni voru með á laugardeginum. Takk fyrir okkur góða fólk.

En sunnudagurinn hefur verið langur og strangur. Leiðinlegt að komast ekkert út að hreyfa sig. En framundan er londonferð, vörn og fleirri verkefni. Alltaf nóg að gera á stóru heimili.

mánudagur, október 25, 2004

Hamborg
er æði. Við heimsóttum Odd Martin vin okkar sem býr þar. Við keyrðum af stað á laugardeginum og vorum reyndar um 4 klst á leiðinni. Þegar við komum til Hamborgar var byrjað á því að fara á veitingahús og fá sér Snitsel, enda ekki annað hægt í þýskalandi. Eða hvað, snitselinu var svo rennt niður með stórum bjórum og allir voru ánægðir með það ! Við urðum auðvitað að fara í þýska matvöruverslun, bjórinn þar er víst mikið betri en í danmörku. *dæs* En við vorum hress það kvöldið ;-)

Daginn eftir keyrðum við aðeins um Hamborg og fórum svo í dýragarðinn. Það var auðvitað hápunktur ferðarinnar. Alltaf svo ótrúlega gaman að fara í dýragarða og sérstaklega að skoða apana. Það er eitthvað svo gaman að horfa á þá. En við keyrðum heim í einum rykk og vorum komin heim um 7 leytið. Ægilega ánægð með þetta allt saman. Það eru komnar myndir inn í albúmið okkar á netinu.

Annars var verið að ákveða að amma Tóta verður hjá okkur um jólin. Oh hvað okkur hlakkar til, strákarnir verða í fríi yfir jólin og þá verður gott að hafa ömmu til að dingla með. En amma ætlar að vera hjá okkur í 2 vikur. Jibbý, skibbý.

þriðjudagur, október 19, 2004

Heimildaþættir

eru uppáhaldssjónvarpsefnið mitt. Við erum með 18 sjónvarpstöðvar hérna og fyrir það borgum við 150 dkr á mánuði. Góður díll. Stöðvarnar sem við erum með eru dönsku stöðvarnar en þær eru um 5 og svo eru norskar, sænskar og þýskar. Það er eins gott að halda vel á spöðunum ef maður ætlar að ná öllum góðu þáttunum. Þriðjudagskvöld eru sjónvarpskvöld en þá er á dagskrá þáttur sem heitir Sporlaus en þar er verið að finna týnda ættingja fólks, oft foreldra, í lokinn hittast allir og það er voðalega átakanlegt. -ég fer alltaf að gráta- Síðan kemur danska Idolið sem er svona lala, Friends og svo Amy dómari vinkona mín. Sem sagt fín sjónvarpskvöld.

En á ríkisstöðinni hérna sem heitir DR1 er mjög oft heimildaþættir og ég er algjör sökker fyrir heimildaþáttum, horfi nánast á hvað sem er þegar að þeim kemur. En það sem ég er búin að sjá og man sérstaklega eftir eru þættirnir um;

"Hamingjusömu" Áströlsku hórurnar, sú elsta var yfir 60 ára.
Þýska mannætan sem borðaði tölvunarfræðingin, ég missti matarlystina við að horfa á þann þátt, reyndar bara í svona 30 mín þannig að ekki grenntist ég þá, ónei !
Indversku læknarnir sem selja nýru úr fólki.
Indverskir apaveiðarar sem selja sjaldgæf dýr til auðkýfinga sem hafa þau í einkadýragörðum.
Slúðurblaðamennina sem skrifuðu um síðustu daga Diönu prinsessu.
BUSH "vin" minn og stríðið. Það var frekar óhuggulegt að heyra hvernig þeir fylgjast með fólki, það er nóg að taka vitlausa bók á bókasafninu og eiga vin í Irak, þá ertu pottþétt handtekinn.

Einstaklega áhugavert !

En við auglýsum eftir einhverjum góðhjörtuðum til að taka upp íslenska Idolið fyrir okkur, svona skemmtilegra þegar maður skilur allt sem dómararnir segja. Við höfum fylgst með norska, sænska og danska, en það er oft ansi erfitt að skilja dómarana. Sérstaklega þessa sænsku og norsku. Jiminneini geta þeir ekki sleppt því að hafa dómara sem talar málýsku ??? Mar bara spyr ;-9

En annars er fínt að frétta, ég er búin að finna mér leiðbeinanda. Hún er ráðgjafi hjá leikskólum Reykjavíkur og gerði mastersritgerðina sína um tvítyngd börn. Þannig að það ætti að vera ægilega fínt allt saman.


sunnudagur, október 17, 2004

Strandferðin

sem Einar Kári fór í á föstudaginn með fjölskyldunni hans Andreasar var svona ægilega vel lukkuð. Þau fór í strætó með 4 börn, Andreas, Einar og svo 2ja ára tvíbura sem þau eiga. Hörku fólk á ferð. Sé okkur hjónin í anda nenna þessu, öhöm. En ægilega var Einar lukkulegur með þetta og hann talar mikið um Andreas og fjölskyldu.

Það er síðasti dagur í haustfríi í dag og ég er mjög ánægð með afköst vikunar en það sem stendur upp úr er sýningin hans Ólafs Elíasar á Aros listasafninu hérna í Århús. Við Heiðbrá vorum sammála um að hann skapar ýmis atriði í íslenskri nátturu á alveg sérstakan hátt. Stórkostleg upplifun. En ég náði líka að mála eldhúsið og skrifa 1 ritgerð þannig að ég er sátt. Eldhúsið er orðið æði ! Núna vantar bara nýja eldavél, ég blikka kannski bóndann ef ég fæ einhvern aukapening. *blikkblikk*

Ég er búin að ákveða um hvað ég ætla að skrifa lokaritgerðina mína, en mér tekst ekki að fá neinn til að leiðbeina mér. Núna verð ég reyndar bara að fara út fyrir Kennó til að fá leiðbeinanda, kennararnir sem ég er búin að tala við eru allir í rannsóknarleyfi eða komnir með of marga nú þegar !!! Övböv eins og danir segja !

Guðni og Gummi eru hressir, Guðni er farinn að tala aðeins meira og fyrsta 2ja orða setningin hans var "pabbi prumpa" en það finnst honum óendanlega fyndið !!!! Gumma finnst það reyndar líka fyndið þannig að þeir feðgar geta skemmt sér við að prumpa í kór. Gaman að því.

miðvikudagur, október 13, 2004

Fiskasafnið í Silkeborg

var áfangastaður okkar í gær. Heiðbrá og Baldvin fóru með okkur og við skemmtum okkur konunglega. Það er jafnvel verið að tala um að kaupa árskort. Sjáum til. En safnið er mjög skemmtilega uppbyggt og Einar er farinn að hafa mjög gaman að því að skoða vandlega. Guðni er meira að hlaupa um og skandalisera !!!

Það er búið að plana og kaupa íslandsferð í febrúar, í viku 7 n.t.t. Danir eru nefnilega allir í vikunum en fyrir íslendinga þá þýðir þetta að við komum heim 14 feb og verðum í 7 daga. Við fengum far aðra leiðina á 5kr þannig að það kostar um 10 þús á mann. Við vorum búin að lofa okkur því að nota tækifærið næst þegar icelandexpress væri með tilboð. Snilldar fyrirtæki ;-)

Ég var að koma frá augnlækni því að ég las í einhverju heilsublaði að ef maður væri með meira en +/- 6 þá ætti maður rétt á ókeypis laiseraðgerð. Augnlæknirinn var mjög hress með þetta og á næstu dögum/vikum á ég von á bréfi frá augndeildinni á sjúkrahúsinu hérna þar sem ég verð kölluð inn í viðtal og svo aðgerð. Mér líður eins og ég hafi "grætt" 250 þús kall. Hvað ætti ég að gera við peningin ?

laugardagur, október 09, 2004

Villingapillan

mín er týnd. En það er svona stuð og stemmningspilla. Ég overdósaði reyndar í brúðkaupi í sumar þannig að kannski kláraði ég bara skammtinn. Vonandi ekki lífsskamtinn. En stelpurnar eru að koma á eftir og það er eins gott að koma sér í gírinn. Það er ponsu erfitt eftir erfiði dagsins sem fólst í að;

  • Kenna Einari Kára að hjóla án hjálpardekkja. Hann er ekki að ná þessu, kannski afþví að hann er alltaf sítalandi -alveg eins og pabbinn, tíhí- og má ekkert vera að því að einbeita sér að því að halda jafnvægi.

  • Fara í leikfimni n.t boltatíma þar sem maður er að leika sér á stórum bolta allan tímann. MUN erfiðara en það virðist. MEN hvað ég var búin á því.

  • Þrífa bílinn, kominn tími til. Ég fékk athugasemd frá skólabróður mínum sem benti mér kurteisislega á að bíllinn minn væri MJÖG vel nýttur. Ég ákvað að þrífa hann örlítið, því að þó að hann sé "drusla" þá er alger óþarfi að hann sé eins og "drusla"

  • Tiltekt í garðinum. Jiminneini segi ég nú bara. Við hjónin erum svona þokkalega samhent og við vinnum mjög vel saman. En úti í garði er andskotinn laus, við bara þolum ekki garðvinnu og skapið er eftir því. Mjög hvimleitt þar sem nágrannar okkar eru með MEGA flotta garða og okkar er alltaf eins og eftir fellibyl -í beðunum- allt á tjá og tundri. Strákarnir skemmtu sér reyndar konunglega, hlupu um allt með sóp og hrífu að vopni. En við kaupum okkur aldrei aftur hús með garði.

  • Matargerðin var svo næst á dagskrá eftir allt puðið. Við keyptum okkur frosinn íslenskan fisk og við erum búin að ákveða að á laugardögum þá ætlum við að elda fína fiskrétti -ég hlýt nú samt að hafa ákveðið þetta, vegna þess að Gummi lét eins og honum kæmi þetta ekki við !- En ég eldaði sjúklega góðan fiskrétt með piparostasósu, með því voru hýðishrisgjón og salat. Nammi namm.

Þannig að minns er ponku þreyttur en hlakkar samt voðalega til að fá hina villingana í heimsókn ;-)

föstudagur, október 08, 2004

Fullorðins.

Ég svaf eitthvað ílla í nótt og vaknaði kl 5:30, það er aldrei skemmtilegt ! Þrátt fyrir nýju náttfötin og ullarsokkana þá var ég alltaf að rumska. Ég held nú samt ég viti afhverju ! Ég var að velja mér efni til að skrifa B.ed ritgerðina mína um. MEN hvað það er erfitt. Mig langar að skrifa um svo margt, en mér finnst erfitt að skrifa um eitthvað sem ekki vekur hjá mér meiriháttar áhuga því að ég verð ein að skrifa og þá er erfiðara að halda sig við efnið. Ég meilaði allavegana á kennara sem ég hef áhuga á að leiðbeini mér, svo verð ég bara að sjá til. Mér finnst þetta allt of fullorðins eitthvað að velja um hvað maður ætlar að skrifa lokaritgerðina sína um, ég þarf kannski að fara vinna ;-/ Nei varla, ég skelli mér bara í meira nám þá get ég frestað vinnuhugleiðingum um nokkur ár, hjúkkit.

Einar Kári fékk boðskort í hólfið sitt þar sem er verið að bjóða honum í heimsókn til Andreas sem er með honum á leikskóla. Ji hvað hann hlakkar til. Við foreldrarnir ætlum að njóta þess að vera bara með 1 barn og fara í IKEA. Það er nefnilega mun auðveldara að múta 1 barni heldur en 2. Nákvæmlega helmingi auðveldara.

En framundan er haustfrí og frúin ætlar að klára 1 stk ritgerð og mála eldhúsið. Ikeaferðin er til að kaupa dúllerí sem hefur vantað í eldhúsið. Einmitt það !

Á laugardaginn er svo skvísupartý á Flintebakken. Gaman að því, þá ætla skvísurnar í Århús að mæta og hver veit nema að við förum niður í bæ. -Geðveikt villtar píur-

þriðjudagur, október 05, 2004

Brjálað að gera

um helgina í félagslífinu. Og ekker smá gaman !

Andreas vinur hans Einar kom með honum heim á föstudaginn. Þeir léku sér eins og englar frá kl 2 til 6. Það var fyndið að heyra hvað Einar er orðin góður í dönskunni. Það tekur greinilega 6 mán fyrir börn að ná góðum tökum á leikmáli. Ég man nú reyndar ekki hvað ég hef lesið það oft, en einhvern vegin er maður svo óþolinmóður þegar um eigin börn er að ræða ! Skrítið !

Á laugardaginn fórum við að hitta strákagengið hjá Möggu og Óla, það var svaka stuð. Þeir klæddu sig í búninga og vorum með atriði. Nú get ég ekki beðið eftir að komast í Disney í London og kaupa flotta búninga handa þeim. Vá hvað þeim fannst þetta ÆÐI !

Sunnudagurinn fór í að laga bílinn, Árni bifvélavirkji læknaði bílinn en ég hafði aðeins breytt honum að framan í sumar. Við breytinguna -sem fólst í því að keyra á bíl með krók- brotnuðu ljósin og Árni var svo sætur að setja ný ljós í fyrir okkur. Svo fær hann eðlisfræðikennslu í staðinn. Ekki slæm býtti það ! Það var svaka stuð hjá strákunum að leika við Hjalta og Örnu Rún, ég held að herbergið þeirra hafi svo gott sem verið komið í öreindir !

Það eru komnar nýjar myndir inn á myndasíðuna sem við tókum þegar við skruppum í bambagarðinn. Bambarnir eru svo góðir að þeir leyfa manni að klappa sér, það er alger hápunktur í svona ferðum.

föstudagur, október 01, 2004

Stórt skref

var stigið þegar ég ákvað að hringja í foreldra hans Andreasar sem er vinur hans Einars af leikskólanum. Úff hvað mér finnst oft erfitt að hringja í fólk sem ég þekki ekki. En allavegana þá kemur Andreas með okkur heim í dag. Ég ætla að sækja peyjana snemma og gera eitthvað sniðugt með þeim. Vonandi verður gaman og ekki of mikill hávaði. -Ég tala eins og ég hafi aldrei komið nálægt börnum, er næstum því með B.ed í krakkatemjingu-

Verkefnið hjá okkur í skólanum er allt að smella saman. Þetta er rosalega mikil vinna, en rosalega gaman. En á miðvikudaginn verður síðasti dagurinn okkar í frítídsklubben, það verður fínt.

Í skólum hérna í oftast Fredagsbar, MJÖG vinsælt. Hópurinn minn stundar fredagsbarinn grimmt og skilja ekkert í því að ég nenni ekki að fara. Ég er bara orðin svo gömul eitthvað, sé ekki alveg fyrir mér að ég nenni að drekka frá kl 2 p.m til 2 a.m, annað en áður var. Svona breytist þetta, en það er nú samt ómögulegt að vera stúdent í danmörku og fara ekki á fredagsbarinn. Ég þarf nú ekkert að vera á fylleríi til 2 a.m er það ?

Góða helgi..............