mánudagur, ágúst 28, 2006



Þessi mynd var tekin hjá Kára þar síðust helgi. Sýnir svolítið stemninguna en kvöldið endaði með því að strákarnir fengu að gera "snorbrød". En það er brauðdeig sem sett er á pinna og eldað yfir opnum eldi. Mjög sniðugt og skemmtilegt.

En annars er ég mest upptekin af skólanum þessa dagana. Fyrsti dagurinn var á þriðjudaginn í síðustu viku. Það var dagskrá allan daginn, ýmiskonar fyrirlestrar og endað í sameiginlegri matarveislu. Ég verð nú alveg að viðurkenna að mér leið ekkert sérlega vel fyrst, ráfandi um ein og yfirgefin. Svo skildi ég ekkert í ræðu rektorsins (komst sem betur fer að því seinna að enginn hafði skilið neitt í henni, tíhí) og mig langaði mest til að hringja í Gumma og segja við hann að ég væri hætt við þetta allt saman. Ég ákvað samt að þrauka daginn, og endaði á að skemmta mér stórvel. Kom heim um kvöldið og pantaði mér skólabækur f um 20 þús íkr. Núna bíð ég spennt eftir að fá bækurnar og geta kastað mér yfir fræðin. Við erum frekar fá í bekknum (um 30) og flest stelpur á mínum aldri og yngri. Mér líður þannig núna að ég get ekki beðið eftir að mæta í skólann á þriðjudaginn í næstu viku. En ég verð í skólanum þriðjudaga og miðvikudaga frá 10-14. Mjög sniðugt !

Í öllu þessu skólastússi hafði ég líka tíma til að kíkja á Madonnutónleika með Þóru og Danna vinum okkar í Horsens. Mér fannst tónleikarnir ekkert spes, þannig séð. Það var rosalega mikið af fólki og það var lítið hægt að sjá hana á sviðinu. En svona er þetta með stórstjörnurnar :D En ég var í góðum félagsskap og það er það sem telur, eða hvað ? Gummi var líka í góðum félagsskap hérna heima en hann var með okkar stráka og 2 auka stráka en vinnufélagi hans og konan hans fengu miða á síðustu stundu. Gummi stóð sig eins og hetja í pössunarmálunum, rúllaði þessu upp eins og hann hefði þetta að atvinnu.

Helgin var frábær að venju, við fórum til Þóru og Danna og kíktum á Miðaldarhátið sem var í Horsens. Gistum og fórum svo í gær í sund, en Horsens er með eina af flottari sundlaugum sem við höfum farið í, heit og fín. Algert delúx.

En núna er mánudagur, við erum að fara að fá gesti á miðvikudaginn. Vinur Gumma síðan í þýskalandi og konan hans eru að koma með 2 börnin sín. Þau ætla að gista í 1-2 nætur. Það er svolítið spes að vera að fá fólk í heimsókn sem maður hefur aldrei séð en um leið voðalega spennandi. Við vitum bara að Friedeman (vinur Gumma) er búin að vera mörg ár í Japan og hann getur þess vegna verið giftur japanskri konu sem talar kannski ekki ensku eða þýsku. Mér finnst þetta alveg frábært.

mánudagur, ágúst 21, 2006


Í dag var fyrsti dagurinn sem Jóni Gauta fannst gaman í vöggustofunni. Honum fannst bara alveg reglulega gaman, hló og gerði grín. Þetta eru búnar að vera erfiðar 3 vikur fyrir hann. En núna er hann búin að átta sig á því að þetta er viðvarandi ástand. If you cant beat them, join them. Það er svo mikið þannig.

Einar Kári er í skýjunum með skólann sinn, strákarnir í bekknum eru skemmtilegir og það er margt að gerast. Fritidshjemmet er líka snilld.

Guðni Þór var að byrja í skovhuset í dag er þangað fer hann 2x í viku í talþjálfun og æfingar. Hann er ss í sama prógrammi og Einar var í síðasta vetur. Það er fínt. Við þekkjum þetta og vitum við hverju er að búast.

Helgin var frábær að venju við fórum í ævintýralega veislu á laugardagskvöldið en Kári frændi hélt upp á 18 ára afmæli hans Gísla sonar síns. Það var haldið undir berum himni og þegar við vorum búin að vera í ca 1 klst byrjaði að STURT rigna. Sem betur fer var búið að setja upp tjöld sem við gátum farið undir en það var svo mikil rigning að það var ekki hægt að tala saman. Sem betur fer stytti fljótt upp en það var blautt, blautt, blautt, en gaman, góður matur og skemmtilegur félagsskapur. Strákarnir skemmtu sér konungalega við að leita af froskum og eltast við hvorn annan. En það voru margir strákar á staðnum.

Bera frænka og hennar hyski kom svo í morgunkaffi á sunnudeginum og Þóra, Danni og börn kíktu við í kaffi sem endaði í matarboði. Alveg frábært. Núna erum við bara að finna upp á leiðum til að halda Þóru og Danna eins lengi og við getum í landinu. Það væri nú svart ef þau færu að yfirgefa okkur eins og allir hinir. Kannski hefur það eitthvað með okkur að gera hvað allir eru viljugir til að flytja til Íslands ? Hver veit ???? Vonum samt ekki.

sunnudagur, ágúst 13, 2006


Amma Tóta var hjá okkur í viku, þetta var góð vika með fínu veðri ekki of heitt en sól og blíða alla daga. Amma kom til að skemmta mér á meðan Jón G var að byrja í aðlögun. Sem betur fer, því að JG var ekkert sérlega sáttur við að vera skilin eftir hjá einhverjum ókunnum konum, en það venst eins og allt annað. Hann er núna farinn að vera í vöggustofunni frá kl 8:30 til 14 og er það bara nokkuð gott miðað við aldur og fyrri störf. Hann er að vísu ekki sáttur allan tímann og sefur stutt en hann fær að sitja í vagni og horfa á hin börnin leika sér. Það finnst honum ágætt.

En við amma fórum ss víða, kíktum til Silkeborg og Ry, og ekki má gleyma tuskubúðunum hérna í Århus en við keyptum okkur nokkrar flíkur. Það er alveg best í heimi að kaupa föt með ömmu, hún er svo mikil smekksmanneskja. Ég keyrði hana svo út á flugvöll í gær og finnst skrítið að hún sé farin heim. En svona er þetta.

Alvara lífsins hefst svo á morgun hjá Einari Kára en á morgun er fyrsti skóladagur. Við foreldrarnir förum bæði með, myndum viðburðinn og látum eins og barnið okkar sé fyrsta barnið sem fer í 6 ára bekk. Tja svona er þetta. En hann fer með fína skólatösku frá ömmu Hildi og pennaveski frá Ósk frænku. Ekki amalegt það.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006



Nýr mánuður, ný byrjun. Jón Gauti orðin vöggustofubarn og Einar Kári byrjaður á Fritidshjemmet. Gerist ekki mikið betra en það. Svona svipað og veðrið hérna í Júlí, bara lovely. Besti júlímánuður í mannaminnum.

Persónulega var júlímánuður líka góður fyrir okkur, búið að vera ljúft, fullt af fríi, rólegheit, bjór og sól. Sl helgi endaði svo júlí og líka ljúfalífið, kvöddum það með góðu fólki. Tengdó komu hingað og voru yfir helgina, Ósk systir hans Gumma skellti sér með og hún gisti meira að segja hjá okkur. Það var æði að hitta þetta góða fólk og við hlógum mikið. Fórum lítið, sátum aðallega úti í garði og spjölluðum. Huggó !

Núna er bjórbann (nema á föstudaginn þegar Þóra og Danni koma :Þ) og megrun. Svona er lífið. Skólinn byrjar svo hjá mér 22 ágúst með 3 daga kynningarfundum og skemmtunum. Spennó.